Loftsteinar og vígahnettir á Vísindavöku Rannís 2023
Sævar Helgi Bragason • October 2, 2023
Tvær skemmtimenntir á Vísindavöku
Vísindavaka Rannís er alltaf stórskemmtilegur viðburður. Í ár fór vísindaveislan fram í Laugardalshöll og hefur hún aldrei verið stærri.
Í fyrirlestrasal var boðið upp á fróðleik um allt milli himins og jarðar og fékk ég þann heiður að segja í tvígang frá loftsteinum og vígahnöttum fyrir fullum sal áhorfenda á öllum aldri.
Mér sýndist þau nú bara skemmta sér vel yfir þessum fallegu en líka pínu ógnvekjandi fyrirbærum úr geimnum. Að sjálfsögðu fengu gestir svo að handleika loftsteina.
Þetta er kjörin skemmtimennt (infotainment) fyrir skóla, fyrirtæki og stofnanir.
Myndirnar tók Arnaldur Halldórsson.


Þessa dagana erum við að taka upp næstu þáttaröð af Nýjasta tækni og vísindi. Eitt innslagið fjallar um rafvæðingu flugs. Í blíðskaparveðri fékk ég sitja með Matthíasi Sveinbjörnssyni flugmanni og forseta Flugmálafélags Íslands og fljúga með honum á rafmagni yfir Reykjavík. Vélin er ótrúlega hljóðlát og fislétt. Innslagið verður sýnt í Nýjasta tækni og vísindi á RÚV næsta vetur.

Sunnudaginn 27. ágúst tók ég þátt í virkilega vel heppnuðum fjölskyldudegi Verkfræðingafélags Íslands. Þar var ég hluti af hinni frábæru Vísindasmiðju Háskóla Íslands. Þar sem veðrið var frábært og himinninn léttskýjaður tók ég sólarsjónaukann með og sýndi fólki hana. Í sjónaukanum var hægt að sjá sólbletti og sólgos. Þetta er tilvalin skemmtimennt fyrir börn og fullorðna, svo ef einhver hefur áhuga á slíku, þá er um að gera að hafa samband.